Veltek, HSN, Heilsuvernd og Akureyrarbær funda um samlegð og nýjar leiðir til þjónustuþróunar
Föstudaginn 24. október sl. funduðu fulltrúar frá Veltek, Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN), Heilsuvernd og Akureyrarbæ í húsakynnum HSN Sunnuhlíð. Markmið fundarins var að skoða hvernig hægt er að efla samstarf til að bæta þjónustu við íbúa með nýjum lausnum, aukinni samvinnu og markvissri notkun velferðartækni.
Á fundinum var lögð rík áhersla á samlegð milli ólíkra kerfa þar sem sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og einkaaðilar vinna saman að einu markmiði: að tryggja betri, öruggari og skilvirkari þjónustu fyrir notendur, óháð því hvaða þjónustukerfi þeir eiga aðild að.
Aukinn þrýstingur kallar á nýjar lausnir
Þróunin á landsvísu sýnir m.a. að þjóðin er að eldast og hlutfall þeirra sem þurfa þjónustu vex hratt. Á sama tíma verður stöðugt erfiðara að manna störf í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og kostnaður við þjónustu hækkar. Í þessari stöðu þarf að horfa til nýrra leiða þar sem tæknilausnir, samþætt þjónusta og sameiginlegt skipulag verða lykilþættir.
„Með því að nýta velferðartækni getum við tryggt að þjónusta framtíðarinnar verði bæði skilvirk og mannleg – þar sem tæknin kemur ekki í stað nærveru og persónulegrar umhyggju starfsfólks, heldur styður við hana og styrkir notandann í eigin umsjá.“
Veltek leiðir samstarf til framtíðar
Fundurinn setur af stað sameiginlega vegferð að nýrri þjónustuhugsun þar sem aðilar munu vinna saman að þróun verklags, prófun nýrra lausna og árangursmælingum með þarfir notenda í miðju alls.

Fulltrúar frá Veltek, HSN, Heilsuvernd og Akureyrarbæ á samráðsfundi í Sunnuhlíð 24. október.