Skip to content

SAK prófar bæði íslenskan og enskan talgreini á myndgreiningadeild

Sjúkrahúsið á Akureyri, sem er aðili að Veltek, hefur hafið notkun á Dragon-talgreini (Dragon Speech Recognition – Dragon Medical One) á myndgreiningadeild. Deildin hefur áður nýtt enska talgreini í fimm ár með góðum árangri og var þá ein af fyrstu myndgreiningadeildum á Íslandi til að taka slíka tækni í notkun, með mjög jákvæðri reynslu.

Lausnin hefur reynst mjög vel í sumar og bætir vinnuflæði með því að gera starfsfólki kleift að skrá niðurstöður með raddskipunum í stað handritunar. Samhliða Dragon er SAK einnig að prófa Tíró, íslenska talgreini, og þó að nákvæmni Tíró sé enn ekki alveg sambærileg við enska talgreinina, býður hann upp á mikilvægan möguleika fyrir íslenskt málumhverfi. Ef nákvæmni eykst má gera ráð fyrir að Tíró verði tekin upp í enn ríkari mæli á SAK.

Við fögnum því þegar hagaðilar okkar taka í notkun nýjar velferðartæknilausnir sem styðja við bætt vinnuflæði og hærri þjónustugæði. Slík innleiðing er mikilvægt skref í átt að markvissari notkun stafrænnar tækni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Mynd: www.island.is