Samráðsteymi um nýsköpun í heilbrigðistækni hefur störf

Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og samkvæmt Hagstofu Íslands verða 20% Íslendinga orðin eldri en 65 ára árið 2038. 

Sveitarfélagið Fjallabyggð er komið mun lengra en landið í heild í þessari þróun, en þegar í dag er fimmtungur íbúa orðinn 67 ára og eldri. Því má segja því Fjallabyggð sé í senn bæði gluggi um 20 ár inn í framtíðina og kjörinn vettvangur fyrir þróun framtíðarlausna tengdum öldrunarþjónustu. Fulltrúar Fjallabyggðar hafa gert sér grein fyrir þessu í nokkurn tíma og ríða nú á vaðið til að koma til móts við það sem sumir kalla framtíðarþarfir þjóðfélagsins, en þau kalla áskoranir Fjallabyggðar í dag.

Samstarfsyfirlýsing Fjallabyggðar, HSN og VELTEK

Fjallabyggð hefur ásamt Heilbrigðisstofnun Norðurlands lýst yfir samstarfi við Heilbrigðis- og velferðartækniklasa Norðurlands (VELTEK) sem miðar að því að gera innleiðingu nýrrar heilbrigðis- og velferðartækni í sveitarfélaginu öruggari, skilvirkari og árangursríkari.  Fyrsti fundur samráðsteymis sem starfar eftir samstarfsyfirlýsingunni var haldinn þann 7. apríl þar sem markmið og framtíðarsýn voru rædd, en teymið hefur nokkur heildstæð meginmarkmið að leiðarljósi, svo sem frumkvæði í prófunum, þróun og innleiðingu á nýjum lausnum, ásamt notendafræðslu og ýmis konar samhæfingu innan stjórnkerfisins.
 

Fjallabyggð hefur þegar haft frumkvæði nýjum nálgunum í heilbrigðis- og velferðarþjónustu samhliða nýsköpunar- og þróunarverkefnum í öldrunarþjónustu. Með formfestingu samstarfsvettvangsins gefst tækifæri til að halda utan um reynslu af verkefnum á sviðinu svo þau megi nýtast öðrum sveitarfélögum í landshlutanum og víðar.

Frá vinstri: Perla Björk Egilsdóttir (Verkefnastjóri VELTEK), Elías Pétursson (bæjarstjóri Fjallabyggðar), Guðný Friðriksdóttir (framkvæmdastjóri hjúkrunar HSN) og Anna S. Gilsdóttir (yfirhjúkrunarfræðingur Fjallabyggðar). Helga Erlingsdóttir (verkefnastjóri hjá Fjallabyggð) tók þátt í gegnum netið.